miðvikudagur, 30. desember 2015

Hugleiðsla daglega - áramótaheiti 2016

Eftir að hafa lokið námskeiði í núvitund og fundið fyrir góðum áhrifum iðkunarinnar vil ég gjarnan halda henni uppi. Það gekk mjög vel á meðan á námskeiðinu stóð og stuttu eftir en þegar aðhaldið var farið var erfitt að halda henni við. Þess vegna ákvað ég að hafa það sem áramótaheiti. Síðustu ár hef ég tekið áramótaheitin alvarlega og sinnt þeim vel svo ég er ekki hrædd um að þetta fari í vaskinn.
Til að gera heitið líklegt til árangurs hef ég tekið saman nokkrar leikreglur og annað slíkt.

Aðeins má líða einn dagur án hugleiðslu

Þetta skiptir mestu máli þegar maður er að byggja upp vanann. Sagt er að það taki þrjátíu daga að skapa sér nýja siði svo vonandi verður það komið í byrjun febrúar.

Lágmark tíu mínútna hugleiðsla (en allt er þó betra en ekkert)

"Þriggja mínútna hugleiðsla getur haft mikil áhrif, en ef þú hefur engan tíma, þá eru tuttugu mínútur algjört lágmark."
Ég á allavega tíu lausar mínútur á hverjum degi. En ef ekki, þá er allt betra en ekkert. 

Stefna að lengri hugleiðslum eða um það bil 40 mínútur

Þegar vaninn er komin ætla ég að gera ráð fyrir 40 mínútum á dag. Eflaust koma dagar sem það gengur ekki upp en það er markmiðið til lengri tíma. 


Einn kyrrðardagur á árinu

Á núvitundarnámskeiðinu var einn dagur í kyrrð. Þá voru allir nemendurnir samankomnir í stóru húsi í náttúrunni talsvert fyrir utan Reykjavík. Þar vorum við í fimm klukkustundir án þess að tala, borðuðum, fórum í göngutúr, gerðum hugleiðslur og jóga. Það var mjög nærandi og gefandi dagur og vil ég endurtaka það allavega einu sinni á árinu. Ýmist með því að fara á sérstakan kyrrðardag eða endurskapa hann bara sjálf.


Mismunandi hugleiðslur

Hægt er að gera margar mismunandi hugleiðslur; gangandi, metta (kærleikshugleiðsla), borða með vakandi athygli, skýjaáhorf og ýmislegt fleira. Til að halda fjölbreytni og fá mismunandi upplifanir ætla ég að breyta til reglulega og prófa ýmislegt.


Halda núvitundardagbók

Ég byrjaði á námskeiðinu að halda dagbók og mun halda því áfram. Það er mjög gaman að sjá hve margt maður lærir og upplifir í þessu ferli. Þannig get ég líka séð hversu langt ég er komin miðað við byrjun.


Skrá hverja hugleiðslu á árs-plakat

Sem aðhald og hvatning fékk ég mér stórt dagatalsplakat með öllum dögum ársins og þar ætla ég að merkja við hverja hugleiðslu. Þannig verður gaman að sjá árið fyllast út og fylgjast með árangrinum.

Leiddar hugleiðslur

Til að byrja með sérstaklega ætla ég að gera sem mest af leiddum hugleiðslum. Smám saman líklega æfist þetta og auðveldara verður að gera hugleiðslur án leiðslu.
Ef þið eruð frekar ný í hugleiðslu gæti verið gott að prófa Headspace eða Stop, Breathe, Think, bæði eru til sem forrit í snjallsíma.
Annars er til aragrúi af öðru fríu efni á netinu eftir flotta kennara. Tara Brach er uppáhaldskennarinn minn hingað til og er hægt að finna heilmargar hugleiðslur og fyrirlestra eftir hana á vefsíðunni hennar.   

Hlaðvörp um núvitund

Hlaðvörp (e. podcasts) eru alltaf að verða vinsælli og fjölbreyttari. Með því að hlusta á þau má fræðast um nánast hvað sem hugann girnist - þar á meðal núvitund. Mér finnst mjög gaman að læra um áhrif og gagnsemi hugleiðslu og um ýmsar leiðir til að bæta sjálfan sig í henni.
Ég hef hlustað mikið á Tara Brach sem er bandarískur sálfræðingur. Hún talar mikið í anda búddhatrúar um hugleiðslu, tilfinningar og segir líka brandara. 
Annar þáttur sem ég hef haft gaman af er On Being. Þeir eru ekki um hugleiðslu en fjalla mikið um meiningu lífsins og oftar en ekki hefur það eitthvað að gera með að staldra við, upplifa og njóta.

Ef hugleiðsla er eitthvað sem þið hafið áhuga á hvet ég ykkur til að prófa eitthvað af þessu sem gæti hentað ykkur. Einnig eru allir áhugasamir velkomnir í spjallhópinn Áhugafólk um núvitund á Facebook en þar eru ýmsar umræður sem tengjast hugleiðslu, námskeiðum og margt fleira.


Gleðilegt nýtt (hugleiðslu) ár!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli