fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Friðsæld í febrúar / engir samfélagsmiðlar

Áskorunin fyrir febrúar mánuð er að taka frí frá samfélagsmiðlum. Þetta er sú áskorun sem hefur fengið mestu viðbrögðin myndi ég segja. En að sama skapi hafa margir ákveðið að taka henni líka!
Í dag eru samfélagsmiðlar svo stór partur af lífi okkar flestra að það setur stórt skarð í reikninginn að taka þá út. En þeir eru ekki lífsnauðsynlegir svo það er áhugavert að sjá hvernig lífið er án þeirra í smátíma.
Það verður ekki hjá því komist að segja að ég noti Facebook frekar mikið. Bæði er ég stjórnandi ýmsa hópa en svo hef ég líka mjög gaman af því að fræðast um nýja hluti og spjalla við fólk með svipuð áhugamál þar í þeim fjölmörgu hópum sem hafa myndast um alls konar málefni - allt frá súrdeigsbrauðgerð til barnauppeldis.

Hverjar eru reglurnar

Ég skrái mig út af Facebook og eyði appinu úr símanum. Mér finnst óþarfi að breyta lykilorðinu og láta manninn minn hafa það því ég er alveg ákveðin í þessu.
Instagram fer líka. Twitter líka. Ég nota Twitter reyndar ekki neitt en áður þegar ég hef farið í Facebook-hlé hef ég ákveðið að kannski ætti ég að nota Twitter meira. Nei, ekki núna.
Á síðustu stundu ákvað ég að sleppa Messenger líka en það er aðal samskiptamiðillinn sem ég nota. Kannski þarf ég að svindla aðeins og nota Messenger til að tala við fólk sem ég finn ekki á annan hátt.
Ég ætla að halda snapchat til að fylgjast með mínimalista snappinu (sc: minimalistar) en ég má ekki snappa sjálf. Eða, nei bíddu aðeins. Ég ætla að sleppa snapchat líka. Fyrst ég ætla að gera þetta, þá geri ég þetta alveg! Þið gefið mér bara samantekt á því besta sem ég missti af.
Í staðinn ætla ég að hringja, senda sms eða tölvupósta til að hafa samband við fólk en aðallega hitta fólk frekar en að spjalla í gegnum síma/net.
Ég setti sérstaka prófíl mynd á Facebook þar sem stendur að ég sé í fríi til 1. mars. Hana gerði Elísa vinkona mín sem er einnig með í þessu fríi.

Hverju ég býst við

Ég býst við því að upplifa dagana lengri. Að kíkja af og til á símann og sjá hvað er að gerast eyðir alveg heilmiklum tíma. Hver kannast ekki við að ætla að sjá hvað klukkan er á símanum en sjá svo ný skilaboð og áður en þú veist af er kaffið orðið kalt og þú ert komin lengst í burt í netheiminum? Og veist ekki ennþá hvað klukkan er.
Ég sé fyrir mér að eyða eitthvað af þessum nýfengna tíma í að blogga en annars bara að lesa bækur, horfa á strákana mína, fara út að ganga, mála, prjóna og almennt vera til í hinum raunverulega heimi.
Vonandi mun ég ekki missa af neinum viðburðum á meðan ég er í burtu! Ég held að vinir mínir muni nú samt alveg eftir mér og láti mig vita.

Hvað ég vonast til að læra

Eins og með allar áskoranirnar vil ég læra eitthvað nýtt. Í febrúar vonast ég til að sjá betur hvað það er við samfélagsmiðla sem ég mun sakna og hvað ekki. Og hvernig ég get notað þá í framhaldinu til að njóta þeirra og lífsins sem mest.

Dagur eitt og tvö

Þar sem ég skrifa þetta 2. febrúar er ég komin tvo daga inn í mánuðinn. Í ófá skipti hef ég opnað símann af vana en séð svo að það er ekkert Facebook app til að gleypa tímann minn. Það er mjög skrítin tilfinning að hafa ekki Facebook. Eins og að stór hluti af heiminum mínum sé í gangi sem ég er ekki að taka þátt í. En á sama tíma er það léttir og ég upplifi ákveðna ró.

Ég ætlaði að skrifa þessa færslu í lok janúar til að taka saman hvernig ég sæi febrúar fyrir mér áður en hann byrjaði en er aðeins sein. Nú ætla ég að birta þennan pistil og senda hann út í kosmósið. Ég mun ekki deila honum og fylgjast með fólki læka og kommenta. Eins og í gamla daga.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli